Fóta-fróðleikur

Fótamein

Um 85% fótameina nútímafólks teljast áunnin að mestu. Hér er átt við allt frá líkþornum til fótskekkju (t.d. tábergssig, skekkja í hæl/ökkla).

Hvað gerist?
Orsök líkþorna er yfirleitt of þröngir skór, lág táhetta, saumar og samskeiti, sem veldur núningi og þrýstingi á fótinn.

Orsök fótskekkju er gjarnan slæmir skór (t.d. þröngir, stífir, harðir, þungir, háir hælar) og miklar stöður/ganga á hörðu undirlagi. – Ath. Margir staðhæfa að þeir noti “góða skó” þó þeir þjáist stöðugt af fótameinum. Fólki getur liðið vel í skóm um tíma þó þeir séu ekki endilega fótvænir til lengdar. Einfalt ráð er t.d. að teikna upp útlínur fótar (standandi) og síðan útlínur skósins til að úrskurða hvort hann er of þröngur!

Einkenni sem taka þarf mark á eru t.d. aukin/óeðlileg þreyta í fótum, eymsli/verkir á ofan- eða neðanverðu tábergssvæði, undir il, í hæl, ökklum, hnjám eða mjóbaki, vöðvakrampi í fótlegg. Fótskekkja getur haft keðjuverkandi áhrif á liðamót upp stoðkerfið. Mikilvægt er að ráðast sem allra fyrst að rót meinsemdarinnar. Fæturnir eiga að bera þig uppi allt lífið!

Fótaaðgerðafræðingur getur metið hvort eitthvað er að og gert ýmislegt til að bæta ástandið, gert mikilvægar fyrirbyggjandi ráðstafanir eða þá vísað til annars fagfólks. >> Sjá nánar um táberggsig

Orðalisti : fætur og skór

 • bakverkir Geta verið orsök fótmeina eða fótskekkju.
 • beinútvöxtur Á sér oft stað á fótum, t.d. á hæl og stórutáarlið.
 • biomechanic Lífaflsfræðileg hönnun/þróun.
 • forvarnir Ráðgjöf og meðferð m.t.t. fótameina/sjúkdóma.
 • fótaaðgerðafræðingur Sérmenntuð manneskja sem fæst við hin ýmsu fótamein auk fótsnyrtingar, t.d. niðurgrónar neglur, vörtur, líkþorn, sveppasýkingar Sumir fótaaðgerðafræðingar fást jafnframt við fót- og göngugreiningu og innleggjagerð.
 • fótaaðgerðastofa Þar er fengist við ýmis fótamein og ráðgjöf, auk hefðbundinnar fótsnyrtingar.
 • fótaaðgerðir Víðtæk fótameðferð, s.s. snyrting, meðferð líkþorna, niðurgróinna nagla, varta og sveppasýkinga í nöglum.
 • fótakrem Krem við ýmsum fótkvillum eða til forvarnar.
 • fótamein Fótskekkja, líkþorn, sveppasýking, vörtur, niðurgrónar neglur.
 • fótanudd M.a. til að styrkja vöðva í fótum og örva blóðrás. Sjá líka fótaaðgerðastofa.
 • fótaráðgjöf Ráðgjöf fótaaðgerðafræðings um velferð fóta, innlegg, skó o.fl.
 • fótaverkir Geta orsakast af fótskekkju, tímabundinni rangbeitingu fóta eða rangri skónotkun. Sjá fótgreining.
 • fótaþreyta Getur orsakast af rangstöðu í fótum, t.d. tábergssigi og óheppilegu skótaui.
 • fótgreining Greining á liðum, vöðvum og álagspunktum m.t.t. fótskekkju.
 • fótraki Orsakar oft blöðrur, sprungur, óþef. Má gjarnan rekja til óheppilegs skótaus og/eða sokka.
 • fótskekkja Tábergssig, plattfótur, holfótur, hæl- og táskekkja. Getur verið ættgeng eða áunnin; starfstengd eða orsakast af rangri skónotkun.
 • fótsnyrting Almenn snyrting fóta og tánagla. Fótaaðgerðafræðingar fást að auki við ýmis fótamein. Sjá fótaaðgerðafræðingur.
 • fótsveppur Oft milli tánna. Smitandi (t.d. opinberir sund- og baðstaðir). Meðferð fremur auðveld.
 • fótsviti Sjá fótraki.
 • fótþurrkur Húðflögnun, oft sprungur á hæl, kláði.
 • fætur Velferð fótanna er mikilvæg. Frískari fætur betri líðan!
 • gigtarfætur Oft kreptar, aumar tær, sigið tábergssvæði.
 • göngugreining Greining á göngumunstri, fótabeitingu, álgagpunktum m.t.t. stoðkerfis.
 • hamartær Krepptar tær sem oft orsakast af holfæti, tábergssigi, gigt eða rangri skónotkun.
 • heilsuskór Sjá gæðaskór.
 • hnéeymsli Má oft rekja til skekkju í fót- og öklaliðum.
 • holfótur Há rist, djúpur fótbogi/il. Oft tábergssig og bognar tær. Meðfætt.
 • hæleymsli Orsök getur verið rangstaða í fótum (t.d. holfótur, hælspori, rýrnandi fituvefur).
 • hælspori Beinútvöxtur á neðanverðu hælbeini, veldur oft sársauka.
 • hælsprungur Óæskilegar sprungur á hæl, oft vegna húðþurrks og mikillar siggmyndunar.
 • höggvörn Sjá innlegg.
 • ilsig Sjá plattfótur.
 • innlegg Innlegg eru mikilvæg höggvörn fyrir stoðkerfið. Fólk tekur almennt allt að 20.000 skref á dag, um 90% á hörðu undirlagi.
 • innleggjaráðgjöf Ráðgjöf um hvers konar innlegg henta hverjum, í hvernig skó og við hvaða aðstæður.
 • innleggjagerð Innlegg geta verið byggð upp eða slípuð niður, m.t.t. viðkomandi fótskekkju eða fótameins.
 • innleggssólar Sjá innlegg.
 • lepppar Sjá innlegg.
 • líkþorn Nabbi, ofvöxtur í húðfrumum til varnar álags/núningssvæði. Orsök: skór.
 • naglaofvöxtur Neglur (oft á tám) verða þykkari vegna skerts blóðflæðis, sveppasýkingar, lyfjanotkunar …
 • naglaspangir Til að rétta niðurgrónar neglur. Ýmist mótaðar úr stálvír eða að plastþynna er límd á neglur.
 • naglastyrking Ýmsir dropar eða krem hjálpa.
 • naglasveppur Sveppasýking á milli naglabeðs og naglar. Nögl gulnar, þykknar og jafnvel losnar frá naglabeði. Lyfjameðferð þarf til að uppræta sýkingu. Meðferð fótaaðgerðafræðings getur heft framgang.
 • naglaþröng Þegar umgjörð nagla er of þröng fyrir nögl/neglur, neglurnar vaxa inn/niður og valda sársauka.
 • niðurgrónar neglur Oft v/ sýktrar eða skaddaðrar naglar eða af rangri skónotkun. Ráð: regluleg meðerð eða spangir hjá fótaaðgerðafræðingi.
 • plattfótur Ilsig. Þegar ilin er flöt. Meðfætt eða áunnið.
 • ráðgjöf Ráðgjöf varðandi fótamein og fóthirðu; krem, skór og innlegg. Ráðgjöf fyrir sykursjúka.
 • sigg Óeðlileg siggmyndun á fótum getur bent til fótþurrks, rangbeitingar fóta, fótskekkju, eða rangrar skónotkunar.
 • sjúkraskór Sérstakir skór fyrir sykursjúka, skór fyrir krepptar tær (gigt), breiða og vangæfa fætur.
 • sjúkrasokkar Sjá stuðningssokkar.
 • skoðun Skoðun á fótum m.t.t. fótameina, ásamt ráðgjöf.
 • skóinnlegg Sjá innlegg.
 • sólar Sjá innlegg.
 • spangir Sjá naglaspangir.
 • stoðkerfið Beinagrindin ásamt liðum, liðböndum, vöðvum, sinum.
 • stuðningssokkar Hálf- og heilsokkar sem örva blóðrásina. Heppilegir fyrir hjartasjúklinga, æskilegir í flugi.
 • sveppasýking Herjar t.d. á fætur og/eða táneglur. Orsök t.d. smit (opinberir sund- og baðstaðir), jafnvel högg, langvarandi álag á neglur.
 • sveppavörn Góð fóthirða og smitvarnir. Ráðgjöf hjá fótaaðgerðafræðingi.
 • sykursýki Fótaaðgerðafræðingar eru mikilvægir forvarnaraðilar: t.d. skynprófanir, meðferð og ráðgjöf varðandi sykursýkisfætur.
 • sykursýkisfætur Treg blóðrás og skert taugaboð til fóta getur gert smá skeinu að alvarlegu sári. Sjá sykursýki.
 • tábergssig Þegar millibein í fæti falla niður. Oft vegna langvarnadi álags. Orsök einnig ættgengi, hælaskór, miklar stöður, þyngdaraukning.
 • táneglur Heilbrigðar, niðurgrónar eða sýktar neglur á tám.
 • táskekkja Inndregin stóratá og/eða krepptar tær. Oft af völdum rangrar skónotkunar eða ættgengt. Sjá t.d. holfótur, gigtarfætur.
 • tær Heilbrigðar tær eru mikilvægar fyrir rétt göngumunstur Sjá táskekkja.
 • varta Vírussýking, smitandi (opinberir sund- og baðstaðir). Meðferð hjá fótaaðgerðafræðingi eða t.d. húðsjúkdómalækni.
 • vörtur Sjá varta.
 • þykkar neglur Sjá naglaofvöxtur.

– G.A. tók saman.